top of page

undirbúningur

Áður en gengið er frá dagsetningunni þarf að tékka á nokkrum hlutum. Það fyrsta sem þarf að ganga frá er kirkjan, presturinn og veislusalurinn. Skoðið vel hvaða búnaður er til staðar í salnum. Þar á eftir er að bóka aðkeypta þjónustu, svo sem kokk, ljósmyndara og skemmtiatriði. Veislustjórar eru stundum skemmtikraftar en einnig tíðkast að velja vini eða ættingja í þetta mikilvæga hlutverk. Við leyfum ykkur að skipuleggja brúðkaupsferðina sjálf en það er vissara að gera það með góðum fyrirvara.

Gestalistinn er næstur og boðskortin þar strax á eftir en nánar er fjallað um það hér rétt að neðan. Sumir velja fjölda gesta út frá salnum sem búið er að velja, aðrir velja salinn eftir fjölda gesta.

Svo má ekki gleyma fötunum. Það getur tekið sex til átta mánuði að fá kjólinn afhentan og svo er ekki ólíklegt að það þurfi aðeins að laga hann þegar þú færð hann í hendurnar. Oft er mælt með að hafa árs fyrirvara fyrir kjólinn. Margir skoða brúðarkjóla á Pinterest og fara með í brúðarkjólamátunina, það hjálpar þeim að hjálpa ykkur. Jakkafötin þurfa ekki eins langan fyrirvara en farið þó allavega með fötin til klæðskera svo skálmar og ermar passi upp á tíu.

Gott er að hugsa út í bílinn sem ekur brúðhjónunum úr athöfnina og í veisluna með góðum fyrirvara og fara að skoða hvaða leið þið viljið fara í blómvendi.


Pinterest
Það getur verið góður grunnur að búa til Pinterest board. Þar er hægt að safna saman fjölbreyttum myndum og þannig mynda eina heild fyrir daginn ykkar. Fyrir þá sem elska skipulag og langar að dreyma er Pinterest fullkomið. Þið raðið myndunum svo eftir flokkum á borð við hár, förðun, skart, kjóll, skreytingar, matur og athöfnin.

Gjafalisti
Gott er að hafa frekar meira en minna á listanum. Það er betra að enn sé eitthvað eftir á listanum í stað þess að þurfa að gera sér aðra ferð í verslunina til að bæta á listann rétt fyrir daginn þegar þið hafið þegar í nægu að snúast. Hafið líka hluti á listanum í fjölbreyttum verðflokkum. Ef ykkur langar að safna matarstelli er um að gera að setja það á gjafalistann. Góður maður benti á að góð regla sé að setja hluti á listann sem ykkur langar í en tímið ekki að kaupa sjálf. Gott getur verið að setja upplýsingar um gjafalistann á- eða með boðskortinu.

Hlutir sem stundum gleymast
Skreytingar, dúkar og borðbúnaður - Salir eru fjölbreyttir og misvel hugsað um þá og borðbúnaðinn sem honum gæti fylgt. Gangið úr skugga um hvernig fyrirkomulagið er hjá staðarhaldara, hvenær þið fáið salinn, hvað þið megið gera og hvað fylgir honum. Við erum þá að tala um leyfilegar skreytingar, hnífapör, glös og dúka. Það er eiginlega nauðsynlegt að fá salinn afhentann sólarhring fyrr. Hafið góðan hóp af fólki með sömu sýn á hlutina og þið sem jafnvel geta klárað verkefnið ef orðið er áliðið. Svefn fyrir stóra daginn er líka hluti af verkefnunum ykkar.
Einkaritari brúðar -  Það getur verið gott að hafa móður eða góða vinkonu með sér fyrir athöfnina sem passar upp á að þú borðir, tekur símtöl fyrir þig og dekkar áreiti svo þú getir slakað betur á og notið dagsins.
Baðherbergin - Þegar hugsað er út í skreytingar gleymast baðherbergin stundum. Sumir setja dömubindi, túrtappa og þess háttar í körfu inn á bað.


 

gestalistinn

Prentun
Við hjónin prentuðum okkar kort sjálf. Það tók bilaða vinnu og var langt frá því að vera ókeypis. Kannski völdum við vitlausan pappír en ef við myndum gera þetta aftur myndum við láta prenta kortin á prentstofu. Það er alveg næg vinna að raða þeim í umslög, hvað þá ef þið innsiglið umslagið eða skreytið á annan hátt sem er í tísku þessa stundina.
Við tókum tvær kvöldstundir í að keyra kortin út og sendum nokkur með pósti.


Skráning
Sá sem sér um matseldina þarf að vita fyrir hversu marga veitingarnar eru. Ég mæli með tveggja til fjögurra vikna fyrirvara.
Á boðskortið setjið þið upplýsingar um hvar gestir ykkar láta vita um það hvort þau komi eða ekki. Hægt er að setja símanúmer eða netfang á kortið, sumir stofna netfang á borð við brudkauparsins@gmail.com sem er reyndar upptekið en stinaogkalli2024@gmail.com er örugglega laust.


Hverjum á að bjóða?
Að bjóða í brúðkaupið getur verið vandasamt því einhvers staðar þarf að draga línuna. Fyrir utan ættingja sem „þarf“ að bjóða eru vinir eða kunningjar sem ætlast til þess að verða boðið. Góð þumalputtaregla er að bjóða þeim sem þú myndir bjóða heim í kaffi.
Vinur minn sagði mér að eftir að hafa skipulagt brúðkaup sjálfur muni hann framvegis sýna því skilning ef honum verður ekki boðið í önnur brúðkaup, utan tveggja bestu vina hans.

bottom of page