top of page

veislan

Góð og hnittin dagskrá er lykilatriði til að geta horft til baka á daginn með gleði. Að setja saman dagskrá er samt afar þunn lína að dansa á því dagskráin má ekki vera of þétt og yfirþyrmandi en ekki of slök að fólki fari að leiðast.

Hljóð og tækni
Þegar búið er að bóka veislusal þarf að kanna vel hvaða búnaður er til staðar. Gott hljóðkerfi er lykilatriði svo hljóðið berist vel út í sal.

Auðvitað yrði gaman að taka bæði athöfn og veislu upp á myndband en það getur kostað skildinginn. Ef þið ætlið að taka eitthvað upp, takið þá upp veisluna og í versta falli bara hljóðið. Til að gera það má tengja upptökutæki við mixer.
Brúðhjónin eru oft önnum kafin við að heilsa upp á fólk, kveðja eða gera eitthvað annað og missa því af persónulegum ræðum og jafnvel þó þið heyrið þær er gaman að geta hlustað á þær aftur. Tengdapabbi hélt mjög einlæga ræðu sem við erum þakklát fyrir að eiga á myndbandi en hljóðið hefði verið betra en ekki neitt.


Skemmtiatriði
Byrjið á að velja veislustjóra. Ég mæli með að velja einn frekar en tvo í flestum tilfellum, sérstaklega ef þeir eru ekki vanir að vinna saman. Annars er hætt við að annar tali hinn í kaf og tali yfir hann sem skapar nett óþægilega stemningu. Ég á vin sem ég kýs alltaf að veislustýra með því við vinnum vel saman. Hafið þetta bara í huga.

Bókið skemmtikrafta með góðum fyrirvara. Sumir bóka töframann í fordrykkinn áður en brúðhjónin koma inn. Hann gengur á milli fólks og setur tóninn fyrir veisluna.

Svo er ekki vitlaust að vera með a.m.k. einn skemmtikraft í miðri veislu sem kemur eftir matinn og fyrir eftirrétt sem trekkir upp stemninguna. Þetta getur verið tónlistaratriði, uppistandari, töframaður eða annað sem ykkur dettur í hug.

Munið að bóka trúbador í lok veislunnar.


Matur og drykkir
Kannið með borðbúnað í salnum sem þið veljið. Það er endalaust hægt að fjalla um matinn svo þetta verður stutt. Setjið ykkur í samband við veisluþjónustu, veljið matseðil og spyrjið kokkinn út í gott vín með matnum. Þetta er fagfólk.

Munið að vera með gott úrval af óáfengum drykkjum. Það er svekkjandi að mæta í fínt brúðkaup, mikið gert upp úr fínu víni en þú drekkur ekki eða ert keyrandi og færð volgt og flatt Pepsi Max.


For- og eftirréttur
Veljið eitthvað sem ykkur þykir gott og verðið glöð með að fá. Í forrétt má hafa snittur, súkkulaðihúðuð jarðaber, tartalettur og vatnsdeigsbollur fylltar með ís og má skola öllu niður með kampavíni.

Í eftirrétt eru enn fleiri möguleikar. Sumir velja bara kaffi, konfekt og ein tegund af brúðartertu, aðrir eru með hlaðborð þar sem allt er í boði.


Lykilfólk
Biðjið fjölskyldu eða vini til að taka að sér afmörkuð verkefni. Einhver ber ábyrgð á að taka pakkana og koma þeim á réttan stað, einhver tekur luktirnar og skilar þeim og enn annar sér til þess að salurinn verði ryksugaður í lokin.

Snarl
Munið eftir þessu lykilfólki, verið búin að kaupa snarl sem veitir smá orku til að klára verkið. RedBull, kaffi, Nocco, gos og Kókómjólk. Kex, Corny, nammi, samlokur og annað sem er auðvelt að grípa í og borða. Þið megið smyrja sjálf eða biðja einhvern um það, það þarf alls ekki að kaupa samlokurnar. Þetta á við í uppsetningu salarins og frágang.

leikir og afþreying

Leikir í veislum geta verið mikilvægir til að létta stemninguna, bæði fyrir gesti og brúðhjón. Leikirnir geta verið fjölbreyttir, bæði í gangi alla veisluna eða leikur sem er er kynntur fyrir öllum hópnum og eins leikur með aðkomu brúðhjónanna eða bara almennur gestur sem tekur þátt í smá glensi. ​Hér að neðan eru tillögur um nokkra leiki sem hægt er að fara í og auðvelt er að undirbúa.

Date-krukkan
Skreyttu krukku og veldu hentugan og augljósan stað fyrir hana. Dreifðu miðum á borðin, skildu eftir á diskunum eða hafðu bunka hjá krukkunum og biddu gestu um að skrifa tillögur að date-um fyrir ykkur. Einnig er hægt að láta fólk hengja miðana á tré eða á aðra staði.

Lukkuhjól
Búðu til eða kauptu lukkuhjól. Skreyttu það og merktu með áskorunum fyrir gestina eða verðlaun sem þau geta unnið.

Besta Photo Booth myndin
Hvetjið gestina til að taka skemmtilegar myndir, grettur, fíflagang eða hvað annað. Bara ekki þessar týpísku uppstillty myndir. Annað hvort gestir eða brúðhjónin geta valið þeirra uppáhalds mynd áður en kvöldið er úti.

Eitthvað fyrir börnin
Ef þið ákveðið að bjóða börnum í veisluna er lykilatriði að hafa dagskrá fyrir þau. Það er hægt að hafa teiknimynd í gangi en við hvetjum líka til þess að hafa dót á svæðinu og hafa skipulögð atriði líka. Kannið möguleika á barnaafmæli.is.

Fáðu nei
Allir gestir byrja með þrjár gúmmíteygjur og markmið leiksins er að safna sem flestum teygjum. Þegar þú stendur einhvern að því að segja „nei" verður sá sem það sagði að afhenda eina teygju.
Jafnvel þó svo að teygjurnar klárist er sá ekki úr leik heldur getur haldið áfram að spila.
Hægt er að spila þetta alla veisluna eða í afmarkaðan tíma. Þetta er tilvalinn leikur til að fá fólk til að spjalla á meðan beðið er eftir brúðhjónunum milli athafnar og veislu.


Að dingla í glösin
Fólk slær hníf í glösin og brúðhjónin standa upp og kyssast. Einu sinni veislustýrði ég brúðkaupi en brúðhjónunum fannst þetta kjánaleg og oft langdregin hefð. Við komumst því að niðurstöðu sem ég kynnti fyrir gestina. Í fyrsta sinn sem verður dinglað kyssast brúðhjónin, í annað skipti kyssast foreldrar brúðhjónanna og í þriðja skipti áttu gestir að kyssa sessunaut sinn. Það var bara dinglað tvisvar.

Standa upp, setjast niður
Leikurinn virkar vel snemma í dagskránni, jafnvel á meðan verið er að bíða eftir brúðhjónunum. Veislustjórinn, ættingi eða vinur fer með spurningar þar sem gestir svara með því standa eða sitja. Ef svarið er já stendurðu, ef svarið er nei siturðu. Þetta getur hjálpað sessunautunum að kynnast, læra nýja hluti um hvort annað. Það getur líka verið gaman að fara í leikinn með brúðhjónunum.

Barbie og Ken
Mest brúðkaupslegi leikur sem þú finnur. Einhver nákominn er með lista yfir spurningar. Brúðhjónin snúa bak í bak og skiptast á öðrum skónum. Þegar spurningin „hvort ykkar prumpar oftar?“ kemur upp, setja brúðhjónin upp þann skó sem þau telja vera rétt svar við spurningunni.

bottom of page